Grímsey, lundaskoðun, sjóstöng

Grímsey á Steingrímsfirði er stærsta eyjan fyrir Ströndum, sannkölluð náttúruperla. Í Grímsey var fyrrum býli og fram á 20. öld höfðu menn vetursetu á eyjunni og verbúðir. Í eyjunni var reistur viti 1915 og síðan endurbyggður 1949, eftir að sprengjuflugvél hafði eyðilagt hann með skotárás í síðari heimsstyrjöld.

Lítið er um ferskvatn í Grímsey en uppspretta ein finnst í klettum vestan til á eynni. Heitir þar Gvendarbrunnur eftir Guðmundi biskupi góða sem vígði hann og er þar síðan ávallt ferskt vatn að finna, sama hversu miklir þurrkar eru eða frostharka.

Í Grímsey er ein stærsta lundabyggð norðanlands. Seinni hluta júní 2006 var varpstofn eyjarinnar metinn í fyrsta skipti. Fjöldi notaðra varphola var þá metinn um 31 þúsund sem talið er samsvara fjölda verpandi para.

Einungis 10 mínútna sigling er til Grímseyjar frá Drangsnesi. Ef veður og þátttaka leyfir er boðið upp á morgunsiglingar út í Grímsey með leiðsögumanni á bátnum Sundhana ST-3 frá Drangsnesi milli kl. 9 og 12. Þessar ferðir hefjast 15. júní og standa fram í miðjan ágúst eða eins og veður leyfir. Einnig er aukaferð kl.13:30 til kl 16.30 ef þátttaka reynist næg.

Allar nánari upplýsingar er að fá á Gistihúsinu Malarhorni á Drangsnesi, www.malarhorn.is