Gvendarlaug hins góða

Sundlaugin á sér merka sögu en hún var byggð á fimmta áratug síðustu aldar með sameiginlegu átaki bænda úr hreppnum. 
Hún er opin alla daga frá kl. 8:00 - kl. 22:00.

ATH! Frá 1. maí til 30. september er laugin tæmd og þrifin á hverjum þriðjudegi en pottarnir eru alltaf opnir.

Aðgangseyrir: 600 kr
Börn 0 - 5 ára: Frítt
Börn 6 – 12 ára: 300 kr
67 ára og eldri: 300 kr
Tekið er við greiðslukortum í móttökunni á hótelinu frá 1. maí - 30. september.

ATH!    Enginn lífvörður er við laugina, takið aldrei áhættu og passið börnin!
VARÚÐ! Heiti potturinn getur verið mjög háll!

MUNIÐ! Þvo sér vel og vandlega með sápu áður en farið er í laugina og/eða pottana og allir græða ;)

Sagan

Árið 1929 hófust framsýnir bændur í Bjarnarfirði handa við byggingu sundlauga í firðinum. Tvisvar voru byggðar torflaugar sem eru löngu horfnar en sú laug sem nú stendur traustum grunni á Klúkujörðinni við hlið Hótel Laugarhóls var byggð á árunum1943‐1947. Framkvæmdin var samstarfsverkefni sundfélagsins Grettis, Kaldrananeshrepps og ríkisins, að mestu unnin í sjálfboðavinnu og mikið þrekvirki þar sem engar vélar komust um veglausan fjörðinn.

Gvendarlaug hin forna

Skammt ofan við sundskýlin er Gvendarlaug hin forna, náttúruleg heit uppspretta, blessuð í byrjun 13. aldar af Guðmundi góða fyrrum Hólabiskupi. Guðmundur góði hafði mikil kynni af Ströndum og Strandamönnum allt frá því að hann varð skipreika í Skjaldabjarnarvík árið 1180 og ferðaðist þaðan fótbrotinn, „með leggjabrotin úti“, að Stað í Steingrímsfirði. Á flakki sínu undan ofríki veraldlegra höfðingja síðar á æfinni kom Guðmundur biskup góði oft á Strandir og fylgdu honum þá hópar fátæklinga. Gvendarlaug hin forna er eina heita baðlaugin á Ströndum sem nefnd er eftir Guðmundi. Í gömlum bókum segir að sæti hafi verið hlaðin umhverfis hana og hægt hafi verið að hleypa vatni úr henni að vild.

Laugin var endurhlaðin á níunda áratug síðustu aldar og er nú friðlýst og í umsjá Minjastofnunar. Sagt er að vatnið í henni hafi lækningarmátt og sé sérlega heppilegt gegn augnsjúkdómum. Vatnið úr þessari helgu laug blandast nú í annað sjálfrennandi vatn sem notað er í sundlaugina sem byggð var 1947 og heitir eftir hinni fornu laug, Gvendarlaug hins góða.

 

Sýning í sundskýlunum

ALLIR EITT - sögusýning í sundskýlunum við Gvendarlaug hins góða á Klúku var opnuð þann 8. júní 2014.  Á sýningunni eru ljósmyndir úr fórum Þórdísar Loftsdóttur húsfreyju í Odda frá byggingu og vígslu laugarinnar auk fróðleiks úr gömlum fundargerðabókum Sundfélagsins Grettis en félagið stóð fyrir byggingu sundlaugamannvirkjanna á Klúku undir kjörorðinu Allir eitt.

Sýningin er komin til að vera og veita gestum Gvendarlaugar tilfinningu fyrir þeim einhug og framsýni sem ríkti við gerð þessa merka mannvirkis auk fróðleiks um byggingasögu hennar. Sýningunni er einnig ætlað að vera hvatning til vina og velunnara laugarinnar til að ganga til liðs við Hollvinafélag Gvendarlaugar hins góða og taka höndum saman um að klára það einstaka verk sem bygging laugarinnar var.

Sýningin er opin alla daga á opnunartíma laugarinnar frá kl. 8:00 til kl. 22:00.

Hollvinafélagið, gerast meðlimur

Það er Hollvinafélag Gvendarlaugar hins góða sem á veg og vanda að sýningunni og naut til verksins styrkja frá Menningarráði Vestfjarða.

Til að gerast meðlimur í félaginu er áhugasömum bent á að hafa samband við formann félagsins Arnlíni Óladóttur, arnlin@snerpa.is  eða skrá sig í gegnum fésbókarsíðuna: Hollvinafélag Gvendarlaugar hins góða. Árgjaldið er 3000 kr á einstakling.

 

 

Vatnavinir Vestfjarða

Hvað eru Vatnavinir Vestfjarða?

Vatnavinir Vestfjarða er samstarfshópur í heilsutengdri ferðaþjónustu þar sem landeigendur, ferðaþjónar, stjórnsýsla og aðrir áhugamenn á Vestfjörðum vinna í nánu samstarfi með Vatnavinum og Atvest sem hlúð hafa að framgangi verkefnisins. Markmiðið er að þróa vestfirskt aðdráttarafl á heimsvísu tengt náttúru, heilsu, baðmenningu og vatni og auka þannig verðmætasköpun innan svæðisins. Sjór, vatn og jarðvarmi eru mikilvæg aðdráttaröfl fyrir ferðamenn sem njóta þess að slaka á í heitum laugum og ferðast um í leit að nýrri og ógleymanlegri upplifun. Samstarfshópurinn Vatnavinir Vestfjarða mun hvetja til sjálfbærrar nýtingar náttúrulauga á Vestfjörðum og þróa nýjungar í heilsuþjónustu er stuðlar að fjölgun ferðamanna á Vestfjörðum á næstu árum.