Gvendarlaug hin forna

Skammt ofan við sundskýlin er Gvendarlaug hin forna, náttúruleg heit uppspretta, blessuð í byrjun 13. aldar af Guðmundi góða fyrrum Hólabiskupi. Guðmundur góði hafði mikil kynni af Ströndum og Strandamönnum allt frá því að hann varð skipreika í Skjaldabjarnarvík árið 1180 og ferðaðist þaðan fótbrotinn, „með leggjabrotin úti“, að Stað í Steingrímsfirði. Á flakki sínu undan ofríki veraldlegra höfðingja síðar á æfinni kom Guðmundur biskup góði oft á Strandir og fylgdu honum þá hópar fátæklinga. Gvendarlaug hin forna er eina heita baðlaugin á Ströndum sem nefnd er eftir Guðmundi. Í gömlum bókum segir að sæti hafi verið hlaðin umhverfis hana og hægt hafi verið að hleypa vatni úr henni að vild.

Laugin var endurhlaðin á níunda áratug síðustu aldar og er nú friðlýst og í umsjá Minjastofnunar. Sagt er að vatnið í henni hafi lækningarmátt og sé sérlega heppilegt gegn augnsjúkdómum. Vatnið úr þessari helgu laug blandast nú í annað sjálfrennandi vatn sem notað er í sundlaugina sem byggð var 1947 og heitir eftir hinni fornu laug, Gvendarlaug hins góða.