Vatnavinir Vestfjarða

Hvað eru Vatnavinir Vestfjarða?

Vatnavinir Vestfjarða er samstarfshópur í heilsutengdri ferðaþjónustu þar sem landeigendur, ferðaþjónar, stjórnsýsla og aðrir áhugamenn á Vestfjörðum vinna í nánu samstarfi með Vatnavinum og Atvest sem hlúð hafa að framgangi verkefnisins. Markmiðið er að þróa vestfirskt aðdráttarafl á heimsvísu tengt náttúru, heilsu, baðmenningu og vatni og auka þannig verðmætasköpun innan svæðisins. Sjór, vatn og jarðvarmi eru mikilvæg aðdráttaröfl fyrir ferðamenn sem njóta þess að slaka á í heitum laugum og ferðast um í leit að nýrri og ógleymanlegri upplifun. Samstarfshópurinn Vatnavinir Vestfjarða mun hvetja til sjálfbærrar nýtingar náttúrulauga á Vestfjörðum og þróa nýjungar í heilsuþjónustu er stuðlar að fjölgun ferðamanna á Vestfjörðum á næstu árum.